Reiða Öndin

–  SAGAN  –

Upphafið er sennilega Garðabærinn og Hraunsholtslækurinn þar sem maður ólst upp við að veiða silung vor, sumar og haust frá sex ára aldri. Fljótlega varð lækurinn og nánasta umhverfi Vífilstaðavatns og Urriðavatns ekki nógu spennandi og þá lágu leiðir í austur að Elliðavatni, Bugðu og Hólsá og síðan hefur ekki verið stoppað. Snemma var byrjað að hnýta flugur til að nota við veiðar og er enn verið að. Veiðigyðjan er nefnilega ótrúleg, falleg, ögrandi og dregur mann á hina ótrúlegustu staði. Einn af þeim er Laxárdalur norður í Þingeyjarsýslum. Þar hef ég farið til veiða á hverju vori frá 1998. Umhverfið er töfrandi og vorið er frábær tími til að leggja af stað í stutt ferðalag,  þegar gróður og fuglar eru að taka við sér. Þaðan kemur nafnið Reiða Öndin, því þegar maður er við veiðar á þessum tíma í Laxárdal er tilhugalíf fugla og þá aðallega anda í hámarki og þá er fullt af Reiðum Öndum í kringum þig, jú það hreppa greinilega ekki allir vinninginn !

Þegar þú hnýtir flugur viltu líka hafa þær í fallegum boxum og ég var búinn að leita lengi að lausn sem væri bæði falleg sem gjafavara og hentug við veiðar. Þá var byrjað að hanna leðurveski, svo sem ekki ný hugmynd en af stað var farið. Að hönnun fyrsta veskis Reiðu andarinnar kom systir mín sem aldrei hefur svo ég viti, veitt fisk en er góður hönnuður. Veskin hafa að vísu hafa tekið breytingum og enn er verið að hanna hið fullkomna veski.  Þegar þú ert síðan komin með fluguveski í vasann þá þarftu eitthvað fyrir klippur, töng og fylgihluti. Þá var hönnuð þessi Snúra, sem reyndar er til í mörgum útgáfum víða um veiðilendur, en þessi er hönnuð eftir samtöl og ábendingar frá veiðimönnum sem ég þekki nokkra. Á Snúruna vantaði málband og voru hinar ýmsu útgáfur prufaðar sem virkuðu ekki. Þá fæddist Faðmurinn sem hefur tekið töluverðum breytingum frá því að hann var prufaður fyrst. Hugmyndafræðin á bak við vörulínu Reiðu Andarinnar er að vera léttbúinn við veiðar ef kostur er og með allt sem þú þarft. Sarpur með flugum sem veiða, Snúruna með fylgihlutum og svo Faðminn til að mæla fiskinn, ef þú verður svo heppinn að fullkomna daginn. Reiða Öndin er stanslaust í þróunarvinnu við að skapa nýja hluti til að gera veiðiheiminn litríkari, þægilegri og í leiðinni skemmtilegri.

Kveðja Reiða Öndin

Heimasíða og leitarvélabestun er unnin af Actica